Bráðabirgðaútgáfa.

145. löggjafarþing — 14. fundur,  5. okt. 2015.

beiting Dyflinnarreglugerðarinnar.

[15:13]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa spurningu. Það er rétt að ég lýsti því yfir á Alþingi 17. september að álagið í þeim löndum Evrópusambandsins sem snúa að ytri landamærum væri með þeim hætti að menn hefðu áhyggjur af því að ekki væri öruggt að senda menn til baka þangað. Ég sagði jafnframt að það væri mikilvægt, og það er mjög mikilvægt að mínu mati, að afstaða okkar Íslendinga rímaði dálítið við það sem menn væru að gera í löndunum í kringum okkur þegar litið væri til beitingar Dyflinnarreglugerðarinnar. Ég verð ég að segja að Evrópusambandið er töluvert á iði þessa dagana út frá því hvernig ástandið er í þessum málum.

Vegna þess ástands sem á Ítalíu er — nú er mjög erfitt fyrir mig að tala um einstök mál og það er meira að segja erfitt fyrir mig að fara inn í það þegar fullyrt er að mál hafi ekki fengið efnislega umræðu eða hafi verið kláruð hérna heima efnislega. Það sem ég var að meina 17. september var að sjálfsögðu það að við séum ekki að senda menn til baka til efnislegrar meðferðar.

Ég hef vegna þessa máls sagt að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að fara yfir þessa hluti eins og við höfum verið að gera fram til þessa og passa okkur á því að við steypum fólki ekki í óöruggt umhverfi innan landa sem menn eru ekki öruggir um að séu í lagi. Ég hef þess vegna óskað eftir því við Útlendingastofnun að hún bíði með að vísa þessum hælisleitendum á brott til Ítalíu þar til búið er að leggja almennilegt mat á það hvernig þetta er núna á grundvelli Schengen-ríkjanna og þá sérstaklega í samhengi við fund sem ég sæki á þeim vettvangi í þessari viku.

Ég vil hins vegar líka taka fram að síðan er alltaf hægt að taka mál aftur til meðferðar, Útlendingastofnun gerir það. Við vitum af þeim veikleika sem er í íslenska kerfinu og hann er sá (Forseti hringir.) að það tekur svo óskaplega langan tíma, hefur tekið svo óskaplega langan tíma, að afgreiða þessi mál að það eru alveg dæmi um að einstaklingar hafi verið komnir töluvert inn í íslenskt þjóðfélag þegar kemur að því að vísa þeim úr landi.