­

Illugi Gunnarsson um RÚV: “Framleiðsla innlends efnis er aðalatriði”

Illugi Gunnarsson mennta- og meningarmálaráðherra.

Illugi Gunnarsson mennta- og meningarmálaráðherra.

Í ítarlegu viðtali ræðir Ásgrímur Sverrisson við Illuga Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra um margvísleg málefni kvikmynda- og sjónvarpsgeirans.

Hér birtist seinni hluti viðtalsins þar sem rætt er um málefni Ríkisútvarpsins. 

Illugi nefnir meðal annars að stofnunin sé í fullum færum með að sinna lögbundnum skyldum sínum þrátt fyrir niðurskurðinn og telur einnig hugsanlegt að taka RÚV af auglýsingamarkaði sé horft til lengri tíma. Þá segir hann framleiðslu innlendrar dagskrár og sjálfstæði RÚV lykilatriði.

Fyrri hluta viðtalsins, þar sem rætt er um sóknaráætlun skapandi greina, uppbyggingu kvikmyndasjóðs, kvikmyndamenntun og höfundarréttarmál, má finna hér.

Aðrar kröfur til Ríkisútvarpsins en annarra miðla

– Hver er þín sýn á starfsemi Ríkisútvarpsins?

Ég tel að Ríkisútvarpið hafi mjög mikilvægu hlutverki að gegna. Um leið er eðlilegt að umræða fari fram um það hlutverk. Það er líka eðlilegt að skoðanir séu ólíkar. Fyrir mér snýr hlutverk þess fyrst og fremst að menningu, sögu, vísindum og lýðræðislegri umræðu. Ríkisútvarpið á ekki að vera einhverskonar allsherjar afþreying fyrir alla, hlutverkið er þrengra. Það er nægt framboð af afþreyingarefni og aðrir aðilar sem sinna því hlutverki.

Ríkisútvarpið er stærsta menningarstofnun þjóðarinnar, bæði hvað varðar miðlun menningararfs sem og nýsköpun. Þannig er hægt að réttlæta að skattfé sé veitt til þessarar starfsemi. Við gerum aðrar kröfur til RÚV en allra annarra miðla, að það vinni efni sem ekki er endilega fyrirfram gefið að verði markaðsvara. Þar með er ekki sjálfgefið að fólk hafi ekki áhuga á menningarlegu efni. Ég held reyndar að þegar Ríkisútvarpinu hefur tekist best upp hafi það einmitt verið slíkt efni, nefni til dæmis Orðbragð, þátt um málfræði sem notið hefur mikilla vinsælda í vetur. Það var ekki augljóst fyrirfram að slíkur þáttur myndi ná hylli en það er framleiðsla af þessu tagi sem við getum ætlast til að Ríkisútvarpið standi fyrir umfram almenna markaðinn. Nú nýlega var Ríkisútvarpið svo með frábærlega vel heppnaða beina útsendingu frá lokasýningu á Englum alheimsins í Þjóðleikhúsinu og stóð að upptökum að Ragnheiði hjá Íslensku óperunni. Þetta eru dæmi um vel heppnaða miðlun menningar til allra landsmanna.

Framleiðsla innlends efnis lykilatriði

Lykilspurningarnar varðandi Ríkisútvarpið eru annarsvegar hversvegna viljum við sem samfélag verja fjármunum til útvarps- og sjónvarpsrekstrar á vegum ríkisins – og hinsvegar hversu miklum? Framleiðsla innlends efnis er aðalatriði. 

Lykilspurningarnar varðandi Ríkisútvarpið eru annarsvegar hversvegna viljum við sem samfélag verja fjármunum til útvarps- og sjónvarpsrekstrar á vegum ríkisins – og hinsvegar hversu miklum? Framleiðsla innlends efnis er aðalatriði. Bæði þess efnis sem fólk hefur áhuga á að horfa á en einnig þess sem ekki er eins mikill áhugi fyrir en er mikilvægt að sé til, til dæmis fyrir framtíðarkynslóðir í landinu sem vilja geta glöggvað sig á hvernig núverandi kynslóðir lifðu sínu lífi.

Ef við hugsum þó ekki væri nema tíu ár fram í tímann, bendir allt til þess að við munum þá búa við gerbreytta tækni frá því sem við þekkjum í dag. Sá tími er að líða undir lok að dagskrá sé eingöngu í boði með fyrirfram skipulögðum hætti. Við þessu þarf Ríkisútvarpið að bregðast.

Stóru rökin á sínum tíma fyrir því að ríkið ræki útvarp og sjónvarp voru að enginn einkaaðili var í stöðu til að gera slíkt. Nú er dreifing slíks efnis hinsvegar orðin minnsti hluti vandans, en þá stendur eftir spurningin um efnisframboð. Án þess að gefa mig út fyrir að vera sérfræðingur um þessi mál, þá sér maður til dæmis fyrir sér að mismunandi dreifileiðir spretti fram á næstu árum sem þá henta mismunandi markhópum. Allt er þetta miklum breytingum undirorpið. Ríkisútvarpið eftir tíu ár verður ekki það Ríkisútvarp sem við þekkjum í dag, hvað þá fyrir tíu árum. Stofnuninni er enginn greiði gerður með því að halda einungis í horfinu.

– Hvað líður gerð nýs þjónustusamnings við Ríkisútvarpið?

Þetta er meðal verkefnanna framundan í samvinnu við nýjan útvarpsstjóra og stjórn Ríkisútvarpsins. Undanfarnir mánuðir hafa verið umbrotatímar hjá RÚV og því kannski eðlilegt að tafir hafi orðið á þessari vinnu, en hún er farin af stað.

– Hvað sérðu fyrir þér að samningurinn feli í sér og þá sérstaklega með tilliti til innlendrar dagskrárgerðar?

Ég er einmitt mjög spenntur að setjast yfir þessi mál með nýjum útvarpsstjóra og heyra meðal annars hans áherslur. Mér finnst það sem hann hefur talað um síðan hann tók við lofa góðu og ég held að þarna geti orðið góður samhljómur. Ég leyfi mér því að vera bjartsýnn um framtíð Ríkisútvarpsins.

Stofnunin fær um að sinna skyldum þrátt fyrir niðurskurðinn

– Nú hefur Magnús Geir einmitt talað á svipuðum bjartsýnisnótum en staðreyndin er engu að síður sú að hann er að taka við Ríkisútvarpi sem hefur verið skorið niður um nær fjórðung á undanförnum árum og langt virðist í að takmarkið í þjónustusamningnum frá 2006 náist, þar sem stefnt var að 65% hlutfalli innlends efnis á kjörtíma.

Það er rétt að Ríkisútvarpið hefur mátt þola mikinn niðurskurð, líkt og aðrir fjölmiðlar á Íslandi. Jafnframt er rétt að takmarkanir á auglýsingamarkaði, sem settar voru í síðasta fjárlagafrumvarpi, leiða til þess að draga þarf úr umfangi starfseminnar til samræmis. Aðalatriðið er þó að ég tel stofnunina áfram í fullum færum að sinna sínum lögbundnu skyldum.

Ég bendi einnig á að auglýsingatakmarkanir Ríkisútvarpins gefa öðrum miðlum meira svigrúm, en þar fer einnig fram framleiðsla á innlendu efni, t.d. hjá 365, Skjánum, ÍNN, N4 og fleirum. Miðað við ekki fjölmennari þjóð er auðvitað verið að gera heilmikið innlent efni.

Þá hefur útvistun á framleiðslu efnis Ríkisútvarpins farið sívaxandi í samræmi við þjónustusamning. Þetta þýðir auðvitað samdrátt í innanhússframleiðslunni en á móti kemur að margt bendir til þess að fyrirtæki á almennum markaði geti unnið efni á mun hagkvæmari hátt. Þetta er mjög jákvæð þróun að mínu mati, þarna eru fólgin sóknarfæri fyrir Ríkisútvarpið til að nýta betur sína fjármuni.

Illugi Gunnarsson2

“Auðvitað er alltaf auðveldast að setja meiri peninga í verkefni en miðað við það sem ég hef séð til nýs útvarpsstjóra þá telur hann að það sé líka hægt að nýta fjármagnið betur. “

– Hátt í 80% af fjármagni Ríkisútvarpsins fer í dagskrána og þar af stærsti hlutinn í framleiðslu innlends sjónvarpsefnis. Magnús Geir hefur talað um að takast á við minna Ríkisútvarp með því að „gera minna en gera það betur,“ sem þýðir samdrátt í magni dagskrárefnis. Hvernig getur Ríkisútvarpið uppfyllt fjölbreyttar skyldur sínar við þessar aðstæður?

Auðvitað er alltaf auðveldast að setja meiri peninga í verkefni en miðað við það sem ég hef séð til nýs útvarpsstjóra þá telur hann að það sé líka hægt að nýta fjármagnið betur. Þannig hefur hann nú þegar tilkynnt um nýtt skipurit í stofnuninni og hefur þegar opnað á þann möguleika að stofnunin flytji í hentugra húsnæði. Mig minnir að hann hafi sagt að Ríkisútvarpið sé í „of stórum fötum“.

Með þessum breytingum næst vonandi fram betri nýting peninganna þannig að þeir fari sem mest í sjálfa dagskrána. Það má líka nefna að hlutfall þeirrar dagskrárgerðar sem er útvistað hefur stöðugt farið hækkandi og ég reikna með að sú þróun verði tryggð áfram í nýjum þjónustusamningi.

Hugsanlegt að taka Ríkisútvarpið af auglýsingamarkaði til lengri tíma litið

– Nú er RÚV fjármagnað að mjög miklu leyti með auglýsingum sem að vissu leyti vinnur gegn hlutverki RÚV sem almannastöðvar og setur þrýsting á það að leggja meira uppúr efni sem nýtur mikillar hylli. Á undanförnum áratug hefur hlutfall auglýsingatekna farið úr um fjórðungi uppí allt að 40%. Hversvegna heimila stjórnvöld RÚV enn í dag – og þrátt fyrir hávær mótmæli einkastöðva – að fjármagna svo hátt hlutfall með þessum hætti, í stað þess að byggja meira og jafnvel alfarið á notendagjöldum eins og almannastöðvarnar á Norðurlöndunum og víða í Evrópu gera?

Athyglisvert að þessi þróun í aukningu auglýsingatekna sem átt hefur sér stað hjá Ríkisútvarpinu á undanförnum árum hefur orðið án þess að mikil umræða hafi skapast um það í samfélaginu. Þetta snýr mjög að hlutverki Ríkisútvarpsins, dagskrárlegu inntaki og þátttöku á samkeppnismarkaði, auknar auglýsingar kalla á tilteknar áherslur í dagskrá. Þarna er stór og mikil ákvörðun tekin án mikillar umræðu.

Ríkisútvarpið hefur vissulega á síðustu árum aukið hlutfall auglýsingatekna til að mæta skerðingu á ríkisframlaginu. Það má og segja að þegar hlutfallið er orðið svona hátt er það farið að hafa mikil áhrif á lit og áferð fjölmiðilsins, en við höfum nú ákveðið að takmarka auglýsingatekjur RÚV nokkuð meðan ríkisframlagið heldur sér. Í þessu felst niðurskurðurinn á Ríkisútvarpinu núna.

Það er hinsvegar athyglisvert að þessi þróun í aukningu auglýsingatekna sem átt hefur sér stað hjá Ríkisútvarpinu á undanförnum árum hefur orðið án þess að mikil umræða hafi skapast um það í samfélaginu. Þetta snýr mjög að hlutverki Ríkisútvarpsins, dagskrárlegu inntaki og þátttöku á samkeppnismarkaði, auknar auglýsingar kalla á tilteknar áherslur í dagskrá. Þarna er stór og mikil ákvörðun tekin án mikillar umræðu. Ég er ekki að kveinka mér undan þeirri umræðu sem fór fram þegar við ákváðum að skera niður auglýsingatekjurnar en ég sakna þess að ekki hafi farið fram meiri umræða um auglýsingatekjurnar sem hlutfall af heildartekjum og hvað það þýðir fyrir Ríkisútvarpið.

– Kemur til greina að taka RÚV af auglýsingamarkaði?

Ég get vel hugsað mér það til lengri tíma litið. Það væri vissulega æskilegt. Þannig myndi svigrúm annarra á markaði aukast og RÚV væri þá eingöngu rekið fyrir almannafé, með þeim kröfum og stefnumótun sem því fylgir.

Ég geri mér þó grein fyrir því að miðað við stöðu ríkissjóðs núna er ekki hægt að bæta Ríkisútvarpinu það tekjutap sem yrði vegna afnáms auglýsinga, en þetta er vissulega eitthvað sem ég tel að stefna beri að.

Sjálfstæðið skiptir gríðarlegu máli

– Nú er innheimt útvarpsgjald rúmir fjórir milljarðar, en af því fær RÚV aðeins tæpa 3.3 milljarða. Þið eruð því að setja rúmar sjö hundruð milljónir króna í eitthvað annað.

Já, ég hef alltaf verið frekar andsnúinn sérstökum gjaldstofnum. Ég tel eðlilegra að ríkið innheimti gjöld af fólki sem svo renni í ríkissjóð og þaðan sé veitt fé til þeirra stofnana og verkefna sem ríkið vill sinna. Menn geta gefið þessum gjöldum viss heiti en allt eru þetta skattar. Sú skoðun er stundum uppi að útvarpsgjaldið sé einhverskonar öryggisventill gangvart hugsanlegri misbeitingu stjórnmálamanna og Alþingis. Ég tel þau rök ekki halda vatni. Það er jafn erfitt eða auðvelt fyrir stjórnmálamenn að breyta upphæð útvarpsgjaldsins með lögum eins og að breyta þeirri upphæð sem rynni úr ríkissjóði til Ríkisútvarpsins. Það getur ekki verið þannig að stofnunin „eigi“ fjármuni. Alþingi fer með fjárveitingavaldið.

– En nú er þetta gert svona á Norðurlöndum, í Bretlandi og víðar. Almannastöðvarnar sjá sjálfar um innheimtu afnotagjalda og hafa þannig ákveðið sjálfstæði gagnvart stjórnvöldum.

Jú og svona var þetta hér, en ég sakna ekki þess tíma. Þetta væri líka vonlaust í dag því nú neytir fólk sjónvarpsefnis gegnum allskonar tæki. Á endanum snýst þetta um upphæð gjaldsins, einhver verður að taka ákvörðun um hana og sú ákvörðun er það sem öllu skiptir.

– Hversu mikilvægt er sjálfstæði Ríkisútvarpsins gagnvart stjórnvöldum?

Ef þú átt við fréttastofuna þá segir það sig sjálft að það skiptir gríðarlega miklu máli og er algert lykilatriði. Hvað annan rekstur Ríkisútvarpsins varðar þá er þar yfir stjórn sem Alþingi skipar. Mér fannst mjög mikilvægt að halda því sem verið hefur mestalla tíð að þessi mikilvæga þjónustustofnun hefði stjórn sem skipuð væri af æðstu stofnun landsins, þannig væri áfram sú beina tenging við almenning sem fylgir kosningu Alþingis. Um þetta var nokkuð deilt en mér hugnaðist ekki sú hugmynd að tilteknir hópar, til dæmis Bandalag íslenskra listamanna eða háskólasamfélagið – eins ágætir og þeir eru, ættu að hafa fulltrúa í stjórn frekar en einhverjir aðrir hópar í samfélaginu.

– En nú hljóta sporin frá Útvarpsráðinu gamla að hræða, þar sem menn horfðu gjarnan með flokksgleraugum á hverskyns rekstrarleg atriði eins og ráðningu einstakra starfsmanna eða inntak og framsetningu einstakra dagskrárliða?

Ég held að það sé ekki ástæða til að sýta þann tíma. Ríkisútvarpið var hinsvegar gert að opinberu hlutafélagi með lögum á sínum tíma og starfssvið stjórnar þar skilgreint. Í grundvallaratriðum er það ólíkt gamla útvarpsráðinu. Upphaflega var eingöngu gert ráð fyrir að stjórn kæmi að rekstrarþættinum en á síðasta kjörtímabili var opnað á að stjórnin kæmi einnig að langtímaþróun dagskrár. Ég held að það sé til bóta, en stjórn hefur ekki heimildir til að vasast í reglulegri dagskrá eða störfum útvarpsstjóra, til dæmis mannaráðningum og slíku. Þetta fyrirkomulag tel ég að hafi gefist vel, það hefur til dæmis sýnt sig að undanförnu þegar gefið hefur á bátinn.

Athugasemdir

0 álit

Um höfundinn
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri og ábyrgðarmaður er Ásgrímur Sverrisson.

Tengt efni