Í niðurstöðum í skýrslu nefndar um starfsemi og rekstur RÚV frá 2007, sem birt var fimmtudaginn 29. október, kemur fram að lögbundið eftirlit fjölmiðlanefndar sé ekki virkt vegna þess að nýr þjónustusamningur hafi ekki verið gerður við Ríkisútvarpið. Jafnframt er bent á að í lögum um RÚV sé fjölmiðlanefnd falið víðtækt eftirlitshlutverk sem nefndin hafi ekki getað sinnt. Fjölmiðlanefnd hafi því ekki skilað sjálfstæðu árlegu mati sínu, líkt og kveðið sé á um í 15. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið.

 Af þessu tilefni vill fjölmiðlanefnd taka fram að af hálfu nefndarinnar hefur ítrekað verið bent á það, m.a. í bréfum til mennta- og menningarmálaráðuneytis, að umræddur þjónustusamningur hafi ekki verið gerður, ekki hafi verið skýrt hvernig lögbundnu eftirliti fjölmiðlanefndar með RÚV skuli háttað og ekki tekin afstaða til þess hvort nefndin eigi að yfirtaka að öllu leyti það eftirlit sem áður var á hendi Ríkisendurskoðanda. Í skýrslunni er hins vegar ekki fjallað um  meginástæðu þess að fjölmiðlanefnd getur ekki sinnt því hlutverki sem henni er ætlað samkvæmt lögum, en það helgast af því að nefndin hefur ekki fengið fjárveitingar til að sinna verkefninu.

 Árið 2013 voru samþykkt ný lög um Ríkisútvarpið þar sem fjölmiðlanefnd er ætlað veigamikið eftirlitshlutverk. Í umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins um frumvarp til laganna sagði:

 „Hvað varðar áhrif á útgjöld A-hluta ríkissjóðs vegna starfsemi stofnana sem frumvarpið tekur til er einkum um það að ræða að gert er ráð fyrir að ákvæði í frumvarpinu sem kveður á um mat fjölmiðlanefndar á frammistöðu RÚV hafi í för með sér að stofnunin þurfi að ráða einn sérfræðing til að annast um það verkefni. Útgjöld nefndarinnar vegna þess eru áætluð um 10 m.kr. samkvæmt mati fjármálaráðuneytisins.“

 Þrátt fyrir þetta var ekki brugðist við í fjárlögum þess árs heldur voru fjárveitingar þvert á móti lækkaðar um 3,5 milljónir króna miðað við fjárframlag til nefndarinnar árið 2013. Niðurskurðurinn sem nam  8,5% miðað við fjárveitingar fyrra árs var rökstuddur með því að verulega skyldi dregið saman í rekstri nefndarinnar án þess að því væri borið við að útskýra hvernig slíkum samdrætti yrði komið við þegar þvert á móti lá fyrir að verkefni nefndarinnar hefðu verið stóraukin, ekki síst vegna hins nýja eftirlits með Ríkisútvarpinu. Á þessu hefur engin breyting orðið við fjárlagagerð síðan. Þetta er meginástæða þess að við óbreyttar fjárveitingar er útilokað að fjölmiðlanefnd geti sinnt því þýðingarmikla eftirliti sem henni er ætlað að hafa með Ríkisútvarpinu.